Hlynur setti vallarmet á Flúðum

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, setti nýtt vallarmet á Selsvelli á Flúðum á þriðjudag en hann lék hringinn á 63 höggum eða sex höggum undir pari.

Hlynur fékk sjö fugla og einn skolla á hringnum. Hann bætti vallarmetið á gulum teigum um tvö högg en Sigurbjörn Þorgeirsson lék Selsvöll á 65 höggum árið 2007.

„Þetta var mjög góður hringur hjá mér. Ég hitti nánast allar brautir og líka flatir. Ég missti eina flöt og þar vippaði ég í fyrir fugli,“ segir Hlynur Geir í samtali við kylfing.is.

„Ég á núna tvö vallarmet, heima á Selfossi og núna á Flúðum. Það er alltaf gaman að ná sér í vallarmet. Selvöllur var nokkuð blautur á þriðjudag þannig að ég er mjög sáttur með mína spilamennsku.“

Hlynur æfir nú stíft fyrir Íslandsmótið í höggleik sem er framundan á Korpúlfsstaðavelli í Reykjavík um aðra helgi. Þar á hann góðar minningar en Hlynur sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fór á vellinum árið 2008.

„Það er alltaf gaman að taka þátt í Íslandsmótinu í höggleik og verður frábært að vera með á Korpunni. Þetta er alvöru völlur keppnisvöllur.“

Fyrri greinAukning í leigusamningum íbúðarhúsnæðis
Næsta greinAndri og Thelma skrifuðu undir