Hlynur og Alexandra sigruðu – Ástmundur fór holu í höggi

Meistaramóti Golfklúbbs Selfoss lauk á laugardaginn en 80 keppendur luku leik og er þetta metþátttaka. Hlynur Geir Hjartarson og Alexandra Eir Grétarsdóttir urðu klúbbmeistarar.

Hlynur Geir sigraði í meistaraflokki og varð klúbbmeistari í tíunda skipti. Hann spilaði mjög gott golf í mótinu og lauk leik á -12 höggum undir pari. Hlynur lék hringina fjóra á 268 höggum (64-72-69-63) og sigraði örugglega.

Sigur Alexöndru í kvennaflokknum var einnig öruggur en hún lék á 334 höggum (85-85-77-87).

Í 1. flokki sigraði Þorsteinn Ingi Ómarsson á 302 höggum, Aron Emil Gunnarsson sigraði í 2. flokki á 327 höggum, Yngvi Marinó Gunnarsson í 3. flokki á 355 höggum og Ingvar Örn Eiríksson í 4. flokki á 377 höggum. Í 5. flokki karla var punktakeppni þar sem Ingvar Kristjánsson sigraði með 149 punkta.

Í flokki kylfinga 55 ára og eldri sigraði Jón Lúðvíksson á 348 höggum og í punktakeppni kvennaflokksins sigraði Helena Guðmundsdóttir með 147 punkta. Í punktakeppni eldri kylfinga sigraði Vilhjálmur Pálsson með 143 punkta.


Margir kylfingar sýndu mjög góð tilþrif á mótinu en enginn sló við Ástmundi Sigmarssyni sem fór holu í höggi þegar hann sló fallegt högg á 4 holu með 9 járni. Ástmundur fékk glæsilega FJ DNA skó í verðlaun fyrir afrekið. sunnlenska.is/Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson

Fyrri greinAndri Már og Katrín klúbbmeistarar – Árni fór holu í höggi
Næsta greinNý sögunarmylla í Þjórsárdal