Hlynur lék vel á öðrum keppnisdegi

Hlynur Geir Hjartarson á vellinum í Vestmannaeyjum í gær. Mynd/seth@golf.is

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, lék vel á öðrum keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi í Vestmannaeyjum í dag og lyfti sér upp í 5. sætið.

Hlynur lék annan hringinn á 67 höggum, en í gær lék hann á 71 höggi og er núna samtals á -2 undir pari. Hann lyfti sér upp um tíu sæti í dag. Miklar sviptingar urðu í karlaflokknum í dag en Birgir Guðjónsson, Golfklúbbnum Esju er í 1. sæti. Hann lék á 64 höggum í dag og er á -5 undir pari.

Pétur Sigurdór Pálsson og Aron Emil Gunnarsson, báðir úr Golfklúbbi Selfoss eru jafnir fjórum öðrum kylfingum í 36. sæti á +5 höggum yfir pari. Báðir léku þeir á 72 höggum í gær og 75 höggum í dag. Alls munu 65 kylfingar halda áfram á þriðja keppnisdegi en GOSararnir Heiðar Snær Bjarnason, Andri Már Óskarsson, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson og Arnór Ingi Hlíðdal komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Í kvennaflokknum er Heiðrún Anna Hlynsdóttir í 7. sæti, +12 höggum yfir pari eftir tvo hringi. Heiðrún hefur leikið báða hringina á 76 höggum. Hin 15 ára gamla Perla Sól Sigurbrandsdóttir er efst þegar keppni er hálfnuð í kvennaflokki á pari vallarins. Alls munu 25 konur halda áfram á 3. keppnisdegi, en Katrín Embla Hlynsdóttir, systir Heiðrúnar, komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Fyrri greinLágengi fallegasta gatan í Árborg
Næsta greinStokkseyri og Hamar með heimasigra