Hlynur í topp tíu

Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson, GK, varð í 6.-8. sæti á Fitness sportmótinu í golfi sem lauk á Leirdalsvelli í kvöld.

Mótið er önnur umferðin í Eimskipsmótaröðinni þar sem leikinn var 54 holu höggleikur án forgjafar. Í gær voru spilaðar 18 holur en í dag 36 holur.

Hlynur lék hringinn í gær á 73 höggum. Í dag fór hann fyrri hringinn á 72 höggum og þann síðari á 73 höggum.

Hlynur er nú í 3. sæti á Eimskipsmótaröðinni að loknum tveimur mótum með 1629.38 stig.

Andri Már Óskarsson, GHR, varð í 17.-21. sæti. Andri lék fyrsta hringinn á 75 höggum en í dag lék hann á 74 og 73 höggum. Andri er í 20.-24. sæti á mótaröðinni.