Hlynur Geir tryggði sér titilinn

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, tryggði sér í dag stigameistaratitilinn á Eimskipsmótaröðinni í golfi þegar hann varð í 3.-4. sæti á Símamótinu á Grafarholtsvelli.

Hlynur var annar að loknum fyrri keppnisdegi en í dag lék hann á 73 höggum og lauk leik á 219 höggum, sex yfir pari. Hann var jafn Magnúsi Lárussyni, GKJ, í 3.-4. sæti.

Sá kylfingur sem vakti mesta athygli á mótinu var hinn fjórtán ára gamli Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis. Fannar Ingi hélt stöðu sinni í dag og gott betur og lauk leik í 7.-8. sæti á tólf höggum yfir pari eftir hringina þrjá.

Sigurþór Jónsson, GOS, varð í 11.-12. sæti á fimmtán yfir pari og Andri Már Óskarsson, GHR, varð í 15. sæti á átján höggum yfir pari.

Hlynur vann stigakeppni sumarsins með yfirburðum, með 6166,25 stig. Andri Már var næstur sunnlenskra kylfinga í 11. sæti með 2832,50 stig. Þetta er í þriðja sinn sem Hlynur Geir vinnur mótaröðina en í fyrsta skipti sem hann gerir það undir merkjum Golfklúbbs Selfoss.