Hlynur Geir ráðinn til GOS

Kylfingurinn Hlynur Geir Hjartarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss og mun hann keppa undir merkjum GOS á næsta ári.

Starf framkvæmdastjóra er nýtt starf innan félagsins en Bárður Guðmundarson, formaður GOS, segir að verið sé að breyta uppbyggingu félagsins og Hlynur komi þar sterkur inn í að móta starf þess.

„Nú er ég kominn heim aftur og ég hlakka mikið til að taka þátt í uppbyggingu klúbbsins,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is eftir undirskriftina í morgun. „Þetta er örugglega skemmtilegt starf og krefjandi enda verð ég með 203 yfirmenn. Markmiðin eru skýr og þau verða unnin til lengri tíma. Stefnan er að fjölga félagsmönnum, auka félagslíf og mótahald og ekki síst að efla barna og unglingastarf,“ segir Hlynur.

Hlynur hefur verið félagi í GOS í áraraðir en haustið 2005 hóf hann að keppa fyrir Golfklúbbinn Keili í Hafnarfirði og lék undir merkjum GK með góðum árangri síðustu ár. Í ár varð hann stigameistari Golfsambands Íslands og hlaut Júlíusarbikarinn sem veittur er árlega þeim kylfingi sem leikur á lægsta meðalskorinu á Eimskipsmótaröðinni.

Fyrri greinMest lesnu fréttir ársins
Næsta greinGolf á gamlársdag