Hlynur Geir í toppbaráttunni

Hörkuspenna er á Íslandsmótinu í höggleik á Kiðjabergsvelli fyrir síðasta keppnisdaginn á morgun. Hlynur Geir Hjartarson er jafn tveimur öðrum kylfingum í 2. sæti.

Hlynur lék sinn besta hring á Kiðjabergi til þessa í dag, á 70 höggum eða einum undir pari. Hann er jafn Birgi Leif Hafþórssyni og Heiðari Davíð Bragasyni í 2.-4 sæti. Sigmundur Einar Másson leiðir keppnina með eins höggs forskoti.

Hjalti Atlason, klúbbmeistari GKB, lék á 76 höggum í dag og er í 20.-24. sæti. Andri Már Óskarsson, GHR og Halldór X. Halldórsson, GKB, voru saman í holli í dag og léku báðir á 75 höggum. Andri er í 35.-36. sæti og Halldór einu sæti neðar.

Örvar Samúelsson, GA, lék best allra í dag á 68 höggum, þremur undir pari, og jafnaði vallarmetið sem Birgir Leifur setti á fimmtudaginn. Örvar fékk fugl á síðustu sex holunum og var með átta fugla í dag.

Í kvennaflokki lék Tinna Jóhannsdóttir úr GK þriðja hringinn á 71 höggi í dag og jafnaði þar með vallarmetið sem Valdís Þóra Jónsdóttir setti í Pro-Am mótinu sl. mánudag.

Tinna fór með þessum góða hring í annað sætið og er aðeins einu höggi á eftir Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur úr GR, sem lék á 76 höggum í dag. Signý Arnórsdóttir úr GK lék á 73 höggum í dag og fór upp í þriðja sæti og komst í lokahollið með Ólafíu og Tinnu á morgun.

Staða efstu karla eftir þriðja hring:
1 Sigmundur Einar Másson, GKG 213
T2 Birgir Leifur Hafþórsson, GKG 214
T2 Heiðar Davíð Bragason, GHD 214
T2 Hlynur Geir Hjartarson, GK 214
T5 Örvar Samúelsson, GA 216
T5 Þórður Rafn Gissurarson, GR 216
T7 Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR 218
T7 Kristján Þór Einarsson, GK 218
T9 Alfreð Brynjar Kristjánsson, GKG 220
T9 Stefán Már Stefánsson, GR 220

Staða sunnlenskra golfara eftir þriðja hring:
T20 Hjalti Atlason, GKB 227
T35 Andri Már Óskarsson, GHR 231
T37 Halldór X. Halldórsson, GKB 232
T57 Gunnar Marel Einarsson, GH 240
T59 Þorsteinn Hallgrímsson, Tudda 241
T74 Sigurjón Sigmundsson, GÖ 248