Hlynur Geir hlaut Júlíusarbikarinn

Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson hlaut í kvöld Júlíusarbikarinn á Lokahófi Golfsambands Íslands sem haldið var í Reykjavík.

Júlíusarbikarinn er veittur árlega þeim kylfingi sem leikur á lægsta meðalskorinu á Eimskipsmótaröðinni.

Hlynur tók þátt í öllum mótum sumarsins á Eimskipsmótaröðinni en meðalskor hans í sumar var 71,31 högg á hring. Hann varð stigameistari í karlaflokki á Eimskipsmótaröðinni og átti góðu gengi að fagna í sumar. Hlynur sigraði á Canon mótinu sem fram fór á Urriðavelli og varð aldrei neðar en í 6. sæti á mótaröðinni í sumar.