Hlynur á 74 höggum á HM

Hlynur Geir Hjartarson og félagar hans í íslenska landsliðinu í golfi eru í 26.-32. sæti eftir fyrsta daginn á HM áhugamanna í Argentínu.

Íslenska liðið lék á 147 höggum eða fimm yfir pari og er tíu höggum á eftir Frökkum sem eru í efsta sæti. Hlynur lék Olivos völlinn í Buenos Aires á 74 höggum í gær en Ólafur Loftsson lék á 73 höggum og Guðmundur Ágúst Kristjánsson á 75 höggum.

„Ég var á -1 á fyrri níu en +4 á seinni níu. Þar af var ég þremur yfir á síðustu fjórum holunum. Ég var ekki að pútta vel en þetta lítur samt ágætlega út. Það var mikið af háum skorum á fyrsta hring enda mikið rok, tré að þvælast fyrir og flatirnar hraðar. Ekki eitthvað sem maður er vanur heima. Við erum í þokkalegri stöðu og njótum þess að spila hérna. Þetta eru mjög flottir vellir og mikið af áhorfendum að fylgjast með,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is að loknum fyrsta hring.

Íslenska liðið er í ráshóp með Bandaríkjunum og Argentínu á öðrum deginum í dag. Keppnisdagarnir eru fjórir, frá fimmtudegi til sunnudags og hver leikmaður spilar 18 holur á dag. Tvö bestu skor dagsins hjá hverju liði telja.

Fyrri greinReykspólandi á átta gata kagga
Næsta greinÞjónustugjald á gesti í þjóðgarðinum