„Hlutirnir gerast ekki með því að smella fingri“

Guðmundur Hólmar skoraði níu mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur á KA í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í dag, 25-24.

„Fyrst og fremst er ég gríðarlega ánægður með að vinna þennan leik, með einu marki og fá þessi tvö stig. Það var mikilvægt fyrir okkur að skilja KA frá okkur á töflunni. Við þurfum að vera auðmjúkir gagnvart stöðunni sem við erum í og stöðunni í deildinni, með öll meiðslin og allt það. Hlutirnir gerast ekki með því að smella fingri eða klappa saman lófunum. Við þurfum að vinna okkar vinnu gríðarlega vel og ég er búinn að vera ótrúlega ánægður með strákana á þessari viku síðan í ÍBV leiknum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Kaflaskiptur leikur
Selfyssingar litu vel út á upphafsmínútunum og náðu strax fjögurra marka forskoti. Um leið og KA fór að spila betri vörn jafnaðist leikurinn og munurinn var orðinn eitt mark undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 12-10.

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiks kom frábær kafli hjá heimamönnum sem breyttu stöðunni í 18-11 á skömmum tíma. Þá tók KA leikhlé og endurskipulagði varnarleikinn og um leið og vörn gestanna small fór að koma hik á heimamenn sem hnoðuðust óþarflega mikið með boltann og enginn vildi taka af skarið.

KA jafnaði 21-21 þegar þrjár mínútur voru eftir og við tók æsispennandi lokakafli. Þar reyndust Selfyssingar sterkari og þrátt fyrir mikinn hamagang og maður-á-mann vörn KA tókst þeim vínrauðu að landa góðum sigri.

Selfoss er nú í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en KA er í 10. sæti með 6 stig.

Guðmundur Hólmar markahæstur
Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 7/3 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 6, Einar Sverrisson og Tryggvi Þórisson 3, Hergeir Grímsson og Ragnar Jóhannsson 2 og þeir Alexander Egan og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu 1 mark hvor. Vilius Rasimas var traustur í markinu og varði 14/1 skot.

Fyrri greinSelfoss missti niður gott forskot
Næsta greinSjálfstæðismenn furðu lostnir