Hlíf skaut Selfyssinga út úr bikarnum

Rangæingurinn Hlíf Hauksdóttir reyndist örlagavaldurinn í leik Selfoss og Vals í Borgunarbikar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar hún tryggði Valskonum 0-1 sigur í framlengingu á Selfossvelli.

Það var jafnræði með liðunum fyrsta korterið en á 7. mínútu leiksins vildu Selfyssingar fá eitthvað fyrir sinn snúð þegar aftasti varnarmaður Vals braut á Guðmundu Óladóttur sem var að sleppa í gegn. Dómarinn lét það hins vegar athugasemdalaust og leikurinn hélt áfram. Fimm mínútum síðar fóru hlutirnir að gerast upp við mark Selfoss en Dagný Brynjarsdóttir átti þá skot í markvinkilinn á Selfossmarkinu.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn náði Valur undirtökunum en Selfossliðið var einbeitt í vörninni og gaf fá færi á sér. Gestirnir fengu þó prýðisfæri á 19. mínútu þegar Kristín Ýr Bjarnadóttir skaut hátt yfir mark Selfoss úr góðri stöðu í markteignum. Valur hélt áfram að sækja og á 25. mínútu slapp Elín Metta Jensen innfyrir vörn Selfoss vinstra megin en skaut rétt framhjá fjærstönginni.

Þó að Selfyssingar lúrðu í vörninni þá áttu þær sínar sóknir og undir lok fyrri hálfleiks átti Andrea Ýr Gústavsdóttir ágætan skalla eftir hornspyrnu sem Þórdís Aikman varði í marki Vals. 0-0 í hálfleik.

Valskonur sóttu látlaust í síðari hálfleik en uppskáru lítið annað en hálffæri fyrr en á 74. mínútu. Þá braut Karen Inga Bergsdóttir á leikmanni Vals í vítateignum og gestirnir fengu dæmt víti. Kristín Ýr fór á punktinn en Michele Dalton sá við henni og varði bæði vítaspyrnuna og skot úr frákastinu stórmeistaralega.

Sjö mínútum fyrir leikslok skapaðist fyrst almennileg hætta upp við mark Selfoss þegar Elín Metta fékk langa sendingu innfyrir en hún náði ekki að stýra boltanum á rammann úr ágætri stöðu. Í uppbótatíma komust Selfyssingar loksins inn í vítateig Vals þegar Guðmunda Brynja lék snyrtilega inn í teiginn og var komin í úrvalsstöðu þegar varnarmenn Vals bar að garði og náðu þeir að stýra hættunni frá áður en Guðmunda náði skoti á markið. 0-0 eftir 90. mínútur.

Fyrri hálfleikur framlengingarinnar var tíðindalítill. Valsmenn áttu nokkur skot utan af velli sem Dalton var ekki í neinum vandræðum með í markinu. 0-0 eftir 105. mínútur og áhorfendur farnir að velta fyrir sér möguleikunum í væntanlegri vítaspyrnukeppni.

Hlíf Hauksdóttir, sem hafði komið inná sem varamaður í framlengingunni, var hins vegar ekkert að spá í vítakeppninni. Eftir að Selfoss hafði tekið mislukkaða hornspyrnu á 109. mínútu brugðu Valskonur sér í snarpa sókn upp hægra megin. Boltinn barst fyrir markið þar sem Selfyssingum gekk illa að hreinsa frá og knötturinn rataði beint á Hlíf sem var í auðum sjó í vítateignum hægra megin. Hún var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lagði boltann fast í hægra hornið framhjá Dalton í marki Selfoss.

Selfyssingar voru skiljanlega slegnir við að lenda undir eftir að hafa lagt líf og sál í varnarleikinn. Sóknir liðsins voru ekki burðugar eftir þetta en þó átti varamaðurinn Katrín Rúnarsdóttir skot framhjá marki Vals á 113. mínútu með sinni fyrstu snertingu eftir góðan sprett Evu Lindar Elíasdóttur upp vinstri kantinn.

Tveimur mínútum síðar skaut Elín Metta í þverslána og yfir mark Selfoss og á lokamínútu framlengingarinnar varði Dalton naumlega í horn lúmskt skot frá Elínu eftir skyndisókn Vals.

Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Valur er í 8-liða úrslitum en Selfossliðið situr eftir með sárt ennið eftir frábæra frammistöðu í kvöld.

Fyrri greinSumarlestur fyrir grunnskólakrakka
Næsta greinSundlaugin á Hellu opnar aftur