Hlaupaleiðirnar færðar inn í Selfossbæ

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brúarhlaup Selfoss fer fram laugardaginn 9. ágúst, á nýrri dagsetningu. Vegalengdum í hlaupinu hefur verið fækkað og hlaupaleiðir færðar inn í Selfossbæ í fallegt umhverfi og á göngustígakerfi bæjarins.

„Þátttakendum hefur fækkað á undanförnum árum og vegna þeirrar þróunar var ákveðið að gera töluverðar breytingar á fyrirkomulagi hlaupsins. Hlaupavegalengdir í ár eru 10 km, 5 km og 2,8 km. Einnig fer fram keppni í 5 km hjólreiðum,“ segir Helgi S. Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss, en deildin er eigandi og framkvæmdaaðili hlaupsins.

Hlauparar í 10 km verða ræstir á Ölfusárbrú kl. 11.30, hlauparar í 5 km hlaupi kl. 11.45 og 5 km hjólreiðum kl. 11.00, verða ræstir undir/við Ölfusárbrú og keppendur í 2,8 km skemmtiskokki verða ræstir í miðbæjargarði Selfoss kl. 11.45. Allir þátttakendur koma í mark í miðbæjargarði Selfoss.

Allar hlaupaleiðir eru löggildar og mældar upp af viðurkenndum aðila og tímataka er í öllum vegalengdum, bæði hlaupa og hjólreiða. Flokkaskipting er í 10 km hlaupi og eru veittir verðlaunapeningar fyrir 1.-3. sæti í hverjum aldursflokki. Allir þátttakendur fá við skráningu keppnisbol og verðlaunapening við komu í mark. Skráningargjöld í forskráningu eru 1000,- kr fyrir 16 ára og eldri og 700,- kr fyrir 15 ára og yngri í allar keppnisgreinar, nema í 10 km hlaupi þar sem skráningagjaldið er 3000,- kr. Veittur er fjölskylduafsláttur þannig að hjón borga fullt gjald, fyrir sig og tvö börn, en ef um fleiri börn er að ræða fá þau frítt. Forskráningu líkur á netinu á hlaup.is, föstudaginn 8. ágúst kl. 16.

Eftir að forskráningu líkur eru skráningargjöldin 1500,- kr, fyrir 16 ára og eldri og 1000,- kr fyrir 15 ára og yngri. Einnig hækkar skráningargjald í 10 km hlaupi í 3500,- kr. Þeir sem ekki vilja fá bol merktan hlaupinu geta afþakkað hann í forskráningu og lækkar þá keppnisgjaldið um 500,- kr. Bolirnir eru úr efni sem notað er í hlaupafatnað.

Skráning fer fram á hlaup.is og í Landsbankanum á Selfossi meðan forskráning er í gangi, en einnig á hlaupadag frá kl. 9.00 í Landsbankanum á Selfossi. Afhending keppnisgagna, til þeirra sem hafa forskráð sig, er á hlaupadag við Landsbankann á Selfossi, frá kl. 09.00.

Verðlaunapeningar eru veittir fyrir þrjú fyrstu sætin í 10 km hlaupi í öllum aldursflokkum, bæði kyn. Einnig eru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í 10 km hlaupi, bæði kvenna og karla. Einnig eru veittir verðlaunapeningar fyrir þrjú fyrstu sætin í öðrum vegalengdum óháð kyni. Að auki verða dregin út útdráttarverðlaun úr hópi keppenda, um leið og keppendur koma í mark. Verðlaunaafhending fer fram í garði Landsbankans á Selfossi kl.14.00.

Allir keppendur fá frítt í sund eftir hlaup, í boði Sveitarfélagsins Árborgar, gegn framvísun keppnisnúmers.


Græna línan er 2,8 km, ræsing í Sigtúni kl. 11.45.
Rauða línan er 5 km, ræsing undir brú kl. 11.45 og hjólreiðar ræstar kl.11.00.
Bláa línan er 10 km, ræsing uppi á brú kl. 11.30.

Fyrri greinAllir hættir lundaveiði að eigin frumkvæði í Mýrdalnum
Næsta greinBjörgvin Karl endaði í 26. sæti