Hlakkar til að skipuleggja mótið í þriðja sinn

Guðríður við undibúning Unglingalandsmótsins í Þorlákshöfn 2018. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ 2021 var langt kominn á Selfossi þegar viðburðinum var frestað í annað sinn. Guðríður Aadnegard, formaður HSK, segir svo skemmtilegt að vinna við mótið að hún hlakki til að skipuleggja mótið í þriðja sinn.

Unglingalandsmótið átti að fara fram síðastliðna verslunarmannahelgi. Eins og svo mörgum öðrum viðburðum þurfti að fresta því um ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Rætt er við Guðríði í nýjasta tölublaði Skinfaxa og hér er hægt að lesa blaðið.

Allir ákváðu að styðja mótið áfram
Mótshaldarar á Selfossi eru Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) og Sveitarfélagið Árborg og var þetta í annað skiptið á jafnmörgum árum sem skipuleggjendur voru með allt klárt þegar öllu var frestað á ný.

Guðríður segir þetta auðvitað bagalegt. Allir hafi þó ákveðið að styðja áfram við mótið. Nánast allir gefendur verðlauna frá því 2019 hafi haldið áfram og sérgreinastjórarnir líka.

„Við vonum auðvitað að staðan verði óbreytt á næsta ári. Mótið í ár hefði verið að einhverju leyti öðruvísi en önnur Unglingalandsmót þar sem rafíþróttirnar áttu að koma inn en þær hafa ekki verið áður. Það verður því spennandi að sjá hvernig rafíþróttirnar koma inn næsta sumar,“ segir hún.

Gaman að sjá gleðina sem skín úr augum
Guðríður hefur verið á mörgum mótum UMFÍ í gegnum tíðina og henni finnast þau alltaf jafnskemmtileg. „Það sem mér finnst skemmtilegast við Unglingalandsmótið er að sjá gleðina sem skín úr augum þátttakenda og vináttuna og samheldnina sem skapast þar,“ segir hún.

Frábær aðstaða í Sveitarfélaginu Árborg
Guðríði finnst líka skemmtilegt að vinna að undirbúningnum og tekur sérstaklega fram hversu gaman sé að vinna að mótinu í Árborg. „Árborg býr yfir svo frábærri aðstöðu og hérna er allt til alls. Það er gaman að sjá hvað nefndinni dettur í hug. Það er hægt að keyra allt í framkvæmd og það er gaman að sjá draumana sína verða að veruleika. Það er líka mikil samheldni, jákvæðni og metnaður hjá stjórnendum Árborgar, sem er frábært,“ heldur hún áfram og bendir á að kröftugt fólk búi á Selfossi og allt um kring á HSK-svæðinu. Allir séu tilbúnir að leggjast á árarnar.

Rosalegur kraftur í fólki
„Það er rosalegur kraftur í fólki og þetta er mjög íþróttasinnaður landshluti. Mér finnst þetta líka svo skemmtileg vinna. HSK-svæðið er góður staður til að halda landsmót og það eru allir fullir tilhlökkunar að takast á við þetta aftur,“ segir hún að lokum.

Smelltu hér til þess að lesa Skinfaxa

Frá unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn
Frá unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn
Frá unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn
Fyrri grein600 sýni tekin á Selfossi í dag
Næsta greinKveikt í ruslageymslu á Selfossi