Hjörvar Steinn Íslandsmeistari í atskák

Tómas Þóroddsson lék fyrsta leik mótsins í fyrra fyrir Hjörvar Stein gegn Degi Kjartanssyni. Ljósmynd/Aðsend

Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði á Íslandsmótinu í atskák, sem fram fór á Selfossi á laugardaginn, eftir einvígi við Dag Ragnarsson. Mótið fór fram við frábærar aðstæður í Bankanum Vinnustofu. Með sigrinum tryggði Hjörvar sér „þrennuna“; hann er Íslandsmeistari í kappskák, atskák og Fischer-slembiskák á sama árinu.

Tómas Þóroddsson, eigandi Messans, lék fyrsta leik mótsins fyrir Hjörvar Stein gegn Degi Kjartanssyni en í samtali við sunnlenska.is vildu skipuleggjendur mótsins þakka Tómasi sérstaklega fyrir að hafa fjármagnað mótið og komið afar rausnarlega að því.

Sem fyrr segir lenti Dagur Ragnarsson í 2. sæti og stórmeistarinn Jóhann Hjartarson, tengdasonur Selfoss, lenti í 3. sæti og átti nokkrar skemmtilegar og vel tefldar skákir. Aukaverðlaun fengu Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, sem var efsta konan á mótinu og efsti keppandinn með 2.000 stig og minna og Brynjar Bjarkason, sem var efsti keppandinn með 1.600 stig og minna.

Hjörvar Steinn og Dagur Ragnarsson háðu einvígi um titilinn.

Yngsti keppandinn níu ára
Alls tóku 34 keppendur þátt í mótinu, á aldrinum 9 til 62 ára. „Nær allir sterkustu skákmenn landsins tóku þátt. Við vorum afar ánægð með þátttökuna, sérstaklega þegar horft er til þess að þetta er svipaður fjöldi og mótin hafa verið að ná á höfuðborgarsvæðinu, sem kom okkur verulega á óvart,“ segir Birkir Karl Sigurðsson, þáttastjórnandi Chess After Dark og skipuleggjandi mótsins, í samtali við sunnlenska.is.

„Við gerðum alveg ráð fyrir því í okkar plönum að það gæti verið allt að 50% munur á þátttöku þar sem fólk þyrfti að keyra fram og til baka á Selfoss. En ég held að það hafi einmitt bara virkað öfugt. Fólk var frekar að mæta af því að mótið var á Selfossi. Nýr mótstaður, nýtt sveitarfélag, nýir mótshaldarar. Mér fannst allir taka mjög vel í þetta.“

Góð þátttaka kom á óvart
Birkir segir að þessi góða þátttaka á mótinu hafi komið á óvart. Skráningin byrjaði nokkuð hægt en við Tommi vorum alltaf salírólegir. Við byrjuðum að auglýsa þetta mót af krafti í hlaðvarpinu okkar, Chess After Dark og Skákfélag Selfoss og nágrennis auglýsti mótið líka vel. Við fengum nokkra heimamenn inn og á endanum var það mikil vinna duglegra einstaklinga sem skilaði þessari góðu þátttöku. Þú færð ekki jafn marga keppendur á Íslandsmót og á almennt skákmót, því að það eru oftast bara þeir allra allra bestu sem taka þátt á Íslandsmótunum. Þannig að við erum bara verulega ánægð með þetta, sérstaklega þar sem allir sterkustu skákmenn landsins voru með.“

Jóhann Hjartarson varð í 3. sæti.

Queen’s Gambit upphafið að öllu
Skákáhugi hefur aukist mikið síðustu ár, bæði hérlendis og erlendis og segir Birkir nokkrar ástæður vera þar á bak við. „Ég ætla nú að byrja á að nefna Queen’s Gambit sem er einhver vinsælasta Netflix-sería sem hefur verið framleidd. Þessir þættir eru í raun uppspretta þess, til dæmis, að við stofnuðum Chess After Dark. Það sem gerðist á þessum tíma, þegar Queen’s Gambit var að byrja, var að skák verður vinsælasti tölvuleikurinn og mest Googlaði hlutur í heiminum.“

„Þannig að við ákváðum að grípa gæsina og byrja með hlaðvarpið. Ég er líka á því að öll umfjöllun um skákina er góð umfjöllun. Það hefur til dæmis verið gaman að fylgjast með dramanu á milli Carlsen og Niemann. Það var til dæmis ástæðan fyrir að við héldum skákmót í kynlífstækjabúðinni Blush! um daginn. Allt svona, sem venjulegir einstaklingar tengja við, hjálpar alltaf skákinni rosalega. Svo viljum við nú kannski hæla okkur aðeins og segja að Chess After Dark hafi komið hinum ýmsu skákmönnum á skákmót, sem þeir voru venjulega ekki að mæta á. Þannig að ég myndi klárlega segja að það væri samþætting á milli þessara hluta.“

Tvær glæsilegar fyrirmyndir
Þrátt fyrir að skákáhugi fólks hafi aukist jafn mikið og raun ber vitni vegna sjónvarpsþátta sem fjölluðu um skákkonu, þá er konur í miklum minnihluta á skákmótum.

„Því miður er það þannig að kynjahlutfallið í skák er ekki gott, sama hvar sem er í heiminum er hlutfallið alltaf svipað, um það bil 10% konur, sem er alls ekki gott. Á mótinu á Selfossi vorum við með tvær konur, tvær glæsilegar fyrirmyndir á meðal þessara 34 keppenda. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, landsliðskona, keppti á efsta borði í síðustu umferðinni og átti algjörlega frábært mót og vann til að mynda aukaverðlaunin undir 2.000 stig. Svo var það Guðrún Fanney Briem, sem er grjóthörð, fædd árið 2010, og átti tvo bræður á mótinu sem eru eldri en hún, sem hafa skólað hana vel til. Ég vona svo innilega að næstu árum að það muni fleiri konur og stelpur mæta á mótin hjá okkur.“

Landsliðskonan Jóhanna Björg Jóhannsdóttir.

Mótið komið til að vera á Selfossi
Í gær fékk Birkir formlegt boð frá Skáksambandi Íslands um að Chess After Dark myndi verða kyndilberi Íslandsmótsins í atskák. „Þeir voru það ánægðir með framkvæmdina. Þó að Chess After Dark hafi að mínu mati staðið sig vel í að skipuleggja mótið, þá breytir það engu hvað við erum góðir skipuleggjendur ef það er ekki til peningur. Þannig að þetta liggur alltaf fyrst og fremst í fjármögnuninni og það er algjörlega frábært að Tómas Þóroddsson skuli láta gott af sér leiða til síns sveitarfélags og að hafa komið með Íslandsmót á Selfoss.“

„Við getum orðað það þannig að á meðan við verðum með þetta mót og Tommi er klár, þá verður þetta mót haldið árlega annan laugardaginn í desember. Það er bara engin spurning og meira að segja er ég með pælingar um að vera með fleiri mót þarna. Mig langar að efla skákstarfið á Selfossi enn frekar. Þannig að ég er frekar að hugsa um að bæta í frekar en að standa í stað. Það er náttúrulega algjörlega frábært ef að – og ég ætla bara að staðfesta það hér og nú – að Selfyssingar séu að næla sér í að vera með eitt Íslandsmót á ári og ég minni aftur á að þetta er ekkert venjulegt Íslandsmót, þetta er Íslandsmótið í atskák. Þetta er næst stærsti titill sem er hægt að vinna á Íslandi,“ segir Birkir að lokum.

Chess After Dark vill þakka öllum sem komu að mótinu og lögðu leið sína á Selfoss. Mótið um helgina er annað Íslandsmótið sem Chess After Dark heldur á einungis tveimur vikum. Sérstakar þakkir fá Ingvar Þór Jóhannesson og Róbert Lagerman.

Lokastöðu mótsins má sjá hér

Útsending Chess After Dark ásamt Ingvari

Mótið tók í heildina um sex klukkustundir og fylgdust þúsundir manns með mótinu á Stöð 2, Stöð 2 Vísir og á Vísi.is. „Einhver slatti mætti á móti sjálft en það voru fleiri þúsundir sem horfðu á mótið heima hjá sér,“ segir Birkir.
Fyrri greinJólastund í Skálholti og á Selfossi
Næsta grein„Tilfinningin var óraunveruleg“