Hjálmar Vilhelm stórbætti sig og setti Íslandsmet

Hjálmar í kúluvarpi á mótinu um helgina. Ljósmynd/Marta María Bozovic Siljudóttir

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, náði frábærum árangri í tugþraut á Norðurlandamótinu í fjölþrautum sem fram fór á Slottsskogsvallen í Gautaborg í Svíþjóð um helgina.

Hjálmar Vilhelm endaði í 5. sæti í flokki U18 ára en hann hlaut 6.733 stig og var aðeins 37 stigum frá þriðja sætinu. Keppnin var virkilega sterk og spennandi í þessum flokki þar sem sjö keppendur fengu yfir 6.500 stig.

Árangur Hjálmars Vilhelms er nýtt Íslandsmet í aldursflokki 16-17 ára og stórbæting á hans eigin HSK meti sem hann setti á Vormóti HSK í fyrra. Þá var hann með 6.025 stig og bætti hann sig því nú um 708 stig. Hjálmar bætti sig í fjölda greina um helgina, sem verður að teljast magnað í tugþraut.

Heilt yfir var frammistaða Hjálmars flott um helgina en það sem stendur uppúr eru kastgreinarnar en hann átti lengsta kastið bæði í spjótkasti og kúluvarpi, annað lengsta kastið í kringlukasti og svo varð hann annar í hástökki og stórbætti sig þar, stökk 1,92 m sem er bæting um 11 sm utanhúss.

Fyrri greinNýir kjarasamningar hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu Árborgar
Næsta greinEva María heldur áfram að bæta sig