Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, er piltur ársins 2025 í hópi 19 ára og yngri hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Uppskeruhátíð FRÍ fór fram í Laugardalshöllinni á föstudagskvöld.
Hjálmar átti frábært ár og setti meðal annars aldursflokkamet í flokki 16-17 ára í tugþraut á NM í fjölþraut í sumar. Þar átti hann virkilega flotta þraut þar sem hann var efstur í tveimur greinum og annar í öðrum tveimur og bætti sinn persónulega árangur í 6 greinum af 10. Hann keppti einnig í tugþraut á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í sumar við ansi krefjandi aðstæður þar sem hitinn var um og yfir 40 gráður, en þrátt fyrir það þá gerði hann sér lítið fyrir og var með bestan árangur í tveimur greinum og persónulega bætingu í fjórum greinum. Auk þessa þá varð hann Íslandsmeistari í hástökki utanhúss í lok ágúst.

Á uppskeruhátíðinni voru einnig veittar viðurkenningar frá Evrópska frjálsíþróttasambandinu og þar var Selfyssingurinn Þráinn Hafsteinsson heiðraður fyrir sitt áralanga starf innan frjálsíþróttahreyfingarinnar. Þráinn hefur sýnt á sínum langa ferli að hann er einn af landsins fremstu uppalendum landsins. Óteljandi frjálsíþróttamenn hefur hann eflt og uppfrætt, en sömuleiðis kynnt íþróttina fyrir ótal íþróttakennaranemum á sínum ferli.

Sunnlendingar fengu fleiri verðlaun á uppskeruhátíðinni en félagarnir í Skálin Entertainment á Selfossi fengu viðurkenningu fyrir miðlun ársins. Þeir félagarnir sýndu beint á netinu frá Meistaramóti Íslands, sem haldið var á Selfossi. Þar var um að ræða glæsilega tímamótaframkvæmd sem gerð var af hugsjón fyrir frjálsíþróttum. Þetta var sérlega glæsileg frumraun hjá þeim félögum.
