Hjálmar sló Íslandsmet og Anna Metta setti fjögur héraðsmet

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson. Ljósmynd/UMFS

Sunnlenskir keppendur náðu frábærum árangri á Silfurleikum ÍR í frjálsum íþróttum sem haldnir voru í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

Þar bar hæst að Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, bætti Íslandsmetið í þrístökki í flokki 15 ára pilta. Hjálmar stökk 13,27 m og bætti Íslandsmet Fannars Yngva Rafnarssonar, Þór Þorlákshöfn, um 29 sm, en met Fannars Yngva var orðið tíu ára gamalt. Auk þess að taka gullið í þrístökkinu sigraði Hjálmar í hástökki og kúluvarpi í flokki 15 ára á mótinu og var einnig á verðlaunapalli í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og 60 m grindahlaupi.

Hin þrettán ára gamla Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, gerði sér lítið fyrir og tvíbætti héraðsmetið í þrístökki 13 ára stúlkna um leið og hún sló metin í flokkum 14 og 15 ára.

Anna Metta átti sjálf gamla metið í 13 ára flokknum, 10,73 m. Hún byrjaði á að bæta sig um 29 sm, stökk 11,02 m en náði síðan frábæru stökki upp á 11,24 m og bætti þar einnig sex ára gömul met Evu Maríu Baldursdóttur, Umf. Selfoss, í flokkum 14 og 15 ára en met Evu var 11,04 m. Anna Metta sigraði einnig í hástökki í flokki 13 ára stúlkna og var einnig á verðlaunapalli í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og 60 m grindahlaupi.

Anna Metta Óskarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Tólf önnur gullverðlaun á Suðurland
Í flokki 14 ára sigraði Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, í hástökki og þrístökki og komst á verðlaunapall í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og 60 m grindahlaupi.

Í flokki 15 ára sigraði Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, í 60 m grindahlaupi og Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, sigraði í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og 60 m grindahlaupi og komst á verðlaunapall í hástökki og kúluvarpi.

Í flokki 16-17 ára sigraði Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Umf. Selfoss, í 60 m grindahlaupi, Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði bæði í hástökki og þrístökki, Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, sigraði í hástökki, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss sigraði í 800 m hlaupi og Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, sigraði í þrístökki.

Fyrri greinGul viðvörun: Vestan stormur
Næsta greinSkáldastund í Húsinu