Hjálmar bætti Íslandsmet 13 ára í spjótkasti

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eitt Íslandsmet féll í kvöld á fyrri keppnisdegi aldursflokkamóts HSK í frjálsum íþróttum sem haldið er á frjálsíþróttavellinum á Selfossi.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, bætti Íslandsmetið í spjótkasti í flokki 13 ára pilta þegar hann kastaði 51,11 m. Gamla Íslandsmetið átti Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, en það var 50,19 m, sett árið 2012.

Hjálmar Vilhelm bætti því Íslandsmetið í flokknum um 92 sentimetra en persónulega var hann að bæta sig um 16,67 metra.

Fleiri héraðsmet og fjöldi bætinga litu dagsins ljós á mótinu í kvöld en greint verður frá þeim að loknum seinni keppnisdegi mótsins sem er á morgun.

Eftir fyrri keppnisdaginn leiðir Selfoss stigakeppnina með yfirburðum, Garpur/Hekla er í 2. sæti í Þjótandi í 3. sæti.

Fyrri greinDrífa ehf tekur við veitingarekstri á Þingvöllum
Næsta greinÓskatak bauð lægst í endurbætur í Ölfusi