Selfoss 2 tók á móti Herði frá Ísafirði í 1. deild karla í handbolta í Set-höllinni Iðu í kvöld. Slæmur kafli um miðjan fyrri hálfleikinn gerði út um leikinn hjá Selfyssingum og Hörður sigraði 35-39.
Selfoss 2 hafði frumkvæðið fyrstu tíu mínútur leiksins en þá tók við tíu mínútna kafli þar sem Selfyssingum tókst ekki að skora og Harðverjar breyttu stöðunni í 10-18. Selfoss 2 náði að klóra í bakkann á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 17-22 í leikhléi.
Í upphafi seinni hálfleiks voru Selfyssingar sprækari og þeir náðu að minnka muninn í 23-25 áður en gestirnir tóku við sér aftur. Hörður jók þá muninn í sex mörk þegar rúmar tíu mínútur voru eftir og lokakaflinn varð aldrei spennandi.
Hákon Garri Gestsson var markahæstur Selfyssinga með 13 mörk, Ragnar Hilmarsson skoraði 6, Aron Leo Guðmundsson 4, Dagur Rafn Gíslason og Bjarni Valur Bjarnason 3, Jón Valgeir Guðmundsson og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Bartosz Galeski og Guðjón Óli Ósvaldsson skoruðu 1 mark hvor.
Garðar Freyr Bergsson varði 9 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson 2.
Selfoss 2 er í 6. sæti 1. deildarinnar með 6 stig en Hörður lyfti sér upp í 4. sætið með sigrinum með 8 stig.
