Hildur Maja fyrsta íslenska konan á verðlaunapalli á heimsbikarmóti

Hildur Maja með silfurverðlaunin. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Selfyssingurinn Hildur Maja Guðmundsdóttir sótti sér silfurverðlaun í gólfæfingum í dag á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum sem fram fer í Tashkent í Úsbekistan.

Hildur Maja skrifar sig þar með í sögubækurnar en hún er fyrst allra íslenskra kvenna til þess að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti (World Challenge Cup) í áhaldafimleikum.

Eftir frábæra undankeppni síðustu daga stóð Hildur Maja sig með sóma og flaug á sannfærandi hátt inn í úrslitin á tvíslá og gólfi. Hún fékk hæstu einkunn allra í undanúrslitum á gólfi og var því skráð númer eitt inn í úrslitin.

Fyrir úrslitin í dag var markmiðið að næla sér í verðlaun á gólfinu og það tókst. Hildur sýndi frábærar gólfæfingar, bætti sig frá undanúrslitum sem skilaði það henni 12.250 stigum og silfurverðlaununum.

Í gær keppti Hildur til úrslita á tvíslá, þar sem hún keppti meðal annars við Ólympíumeistarann á tvíslánni. Hildur framkvæmdi öruggar æfingar, hækkaði sig um 0.150 stig á milli daga og hafnaði í 8. sæti með einkunnina 11.200.

Hildur Maja glöð með silfurverðlaunin. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands
Hildur Maja sýndi frábærar gólfæfingar bæði í undanúrslitum og úrslitum. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands
Fyrri greinBæjarstjórinn opnaði sumarið í Ölfusá
Næsta greinViðbúnaður á Selfossflugvelli í dag