
Stjórn Fimleikasambands Íslands útnefndi Selfyssinginn Hildi Maju Guðmundsdóttur fimleikakonu ársins 2025. Uppskeruhátíð sambandsins var haldin í kvöld.
Hildur Maja er ein fremsta fimleikakona landsins og þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún verið lykilkona í A-landsliði Íslands síðastliðin ár. Hildur Maja náði bestum fjölþrautarárangri íslenskra kvenna á Evrópumótinu í Leipzig, sem og á heimsmeistaramótinu sem haldi var í Jakarta.
Hún toppaði sig svo á árinu þegar að hún varð fyrst Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum, þegar hún hafnaði í 2. sæti á gólfi í Tashkent í Uzbekistan. Að auki keppti hún til úrslita á tvíslá og hafnaði í 8. sæti.
Hildur Maja varð bikarmeistari með félagsliði sínu, Gerplu á árinu og varð hún í 2. sæti á slá á Íslandsmótinu.
