Hildur Helga setti HSK met

Alls voru 98 keppendur skráðir til leiks á Vormót HSK í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossvelli miðvikudagskvöldið 30. maí síðastliðinn.

Tvö HSK met voru sett á mótinu, en Hildur Helga Einarsdóttir úr Umf. Selfoss tvíbætti HSK metið í spjótkasti í flokki 16 – 17 ára með 500 gr spjóti. Hún kastaði í fyrstu tilraun 41,90 metra og bætti þar með ársgamalt met Helgu Margrétar Óskarsdóttur um rúma tvo metra. Hún setti svo annað met síðar í kastseríunni, þegar hún kastaði 42,13 metra. Hildur vann til gullverðlauna í spjótkastinu.

Keppendur af sambandssvæði HSK unnu fimm aðrar greinar á mótinu, en boðhlaupsveitir Selfoss unnu bæði í karla- og kvennaflokki. Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi vann tvær greinar í kvennaflokki, kastaði sleggjunni 39,44 metra og kúlunni 12,35 metra. Þá sigraði Ingibjörg Hugrún Jóhannesdóttir Selfossi í 800 m hlaupi kvenna á 2;59,89 mín.

Þess má geta að Sindri Freyr Seim Sigurðsson Umf. Heklu hljóp á 11,74 sek. í 100 metra hlaupi, sem er betri tími en gildandi HSK met í hans flokki, en meðvindur var aðeins of mikill.

Mótið átti upphaflega að fara fram 19. maí en var frestað í tvígang vegna veðurs. Mótið fór svo fram í ágætu vorveðri, en reyndar voru ekki öll hlaup og stökk lögleg vegna of mikils vinds, sem má vera allt að 2 metrar á sekúndu.

Fyrri grein„Heiður fyrir safnið og Árnesinga“
Næsta greinÆvintýri Gnúpverja á enda