Hildur Helga bætti 19 ára gamalt met

Unglingamót HSK í frjálsum íþróttum fór fram þriðjudagskvöldið 14. ágúst á Selfossvelli. Aðstæður til keppni voru góðar og löglegur vindur í nánast öllum hlaupum og stökkum.

Aðeins 28 keppendur voru skráðir til leiks á mótinu og er það heldur færra en á síðasta ári. Þeir sem mættu á staðinn stóðu sig þó að sjálfsögðu með prýði og margar persónulegar bætingar litu dagsins ljós.

Eitt HSK met var slegið á mótinu en þar var Hildur Helga Einarsdóttir á ferðinni og kastaði 3 kg kúlunni 12,84 m. Þar með bætti hún 19 ára met Ágústu Tryggvadóttur í 16-17 ára flokki um 9 sm.

Umf. Selfoss sigraði stigakeppni mótsins með yfirburðum en keppendur félagsins kræktu í 222 stig. Í öðru sæti varð lið Umf. Þórs í Þorlákshöfn með 64 stig og í þriðja sæti varð Umf. Þjótandi með 42 stig.

Fyrri grein„Héldum áfram og munum halda áfram“
Næsta grein„Getum aukið hamingjuna með einföldum leiðum“