„Hestarnir þegja en fótboltamennirnir ekki“

Eins og sunnlenska.is greindi fyrst miðla frá skrifaði Logi Ólafsson undir tveggja ára samning um þjálfun karlaliðs Selfoss í knattspyrnu í dag.

Í samtali við sunnlenska.is eftir undirskriftina sagði Logi að sér litist mjög vel á starfið og spennandi tímar séu framundan á Selfossi. „Liðinu hefur gengið vel á undanförnum árum þar til það féll úr efstu deild í haust. Þannig gerist þetta, það tekur tíma að búa til stöðugt lið sem getur verið í efstu deild en ef ég hefði ekki talið að það væru töluverðir möguleikar í stöðunni þá hefði ég aldrei tekið þetta að mér,“ segir Logi sem hafnaði boðum frá nokkrum öðrum liðum.

„Það á margt eftir að koma í ljós með mannskap og þess háttar en mér skilst á stjórninni að allflestir hér séu samningsbundnir og verði vonandi áfram. Við munum að sjálfsögðu gera atlögu að því að komast upp aftur en það er mjög krefjandi verkefni og ef árangur á að nást þá þurfa leikmenn, stjórn og þjálfarateymi að vinna vel saman,“ segir Logi sem mun hafa heimamanninn Sævar Sigurðsson sér við hlið til að byrja með. „Til að koma mér í gegnum erfiðustu skaflana.“

Logi þekkir vel til knattspyrnunnar á Selfossi en hann er einn af eigendum Knattspyrnuakademíu Íslands sem starfrækt er í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. „Aðkoma mín að fótboltanum hér á Suðurlandi er öðruvísi en gerist og gengur. Við höfum rekið akademíuna hérna og ég var Selfyssingum innan handar við ráðningu Zoran Mijlkovic á sínum tíma eftir að hafa sjálfur sagt nei við þjálfun liðsins. Síðan hef ég komið mér upp afdrepi hér í Gaulverjabæjarhreppnum og þetta gefur mér tækifæri til að dvelja meira þar sem er ánægjulegt,“ segir þjálfarinn en hann heldur hross á Arnarhóli í Flóa. En eru hrossin ekki farin að toga meira í hann en fótboltinn?

„Nei, þetta fer mjög vel saman. Þetta tekur hvort um sig tíma en meginmunurinn er sá að hestarnir þegja en fótboltamennirnir ekki,“ segir Logi að lokum léttur í lund.

Fyrri greinLogi tekur við Selfoss
Næsta greinBorðaklipping á föstudaginn