Héraðsþing HSK á Hellu tókst vel

Frá héraðsþingi HSK á Hellu í fyrra. Guðríður Adnegaard, formaður HSK, er í ræðustóli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Um 110 manns mættu á héraðsþing HSK sem haldið var á Hellu fimmtudaginn 23. mars síðastliðinn. Líkt og undanfarin var þingið haldið seinnipart dags í miðri viku og hefur það gefist vel.

Engar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en allir stjórnar- og varastjórnarmenn gáfu kost á sér áfram.

HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu, líkt og undanfarin ár. Körfuknattleiksfélag Selfoss hlaut unglingabikar HSK, Hestamannafélagið Geysir fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Garðar Garðarsson valinn öðlingur ársins.

Löng hefð er fyrir því að útnefna matmann þingsins og halda sleifarkeppni sem nokkrir þingfulltrúar taka þátt í.  Jóhanna Bríet Helgadóttir, Umf. Hrunamanna, var valin matmaður þingsins og Guðmundur Karl Sigurdórsson, Knattspyrnufélagi Árborgar, vann sleifarkeppnina.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá áður þá voru Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Egill Blöndal útnefnd íþróttafólk ársins hjá HSK og fimm einstaklingar aðildarfélaga HSK voru heiðraðir á þinginu af HSK, ÍSÍ og UMFÍ.

Myndskreytt ársskýrsla kom út á þinginu og má sjá vefútgáfu skýrslunnar á heimasíðu sambandsins.

Fyrri greinOrðsporið er fjöregg landbúnaðarins
Næsta greinNíu vörur frá ILVA tilnefndar til verðlauna