Kristján Kári Ólafsson, Umf. Selfoss, bætti eigið héraðsmet í sleggjukasti í flokki 16-17 ára pilta á vetrarsólstöðumóti frjálsíþróttadeildar Selfoss sem haldið var á Selfossvelli þann 21. desember.
Kristján Kári kastaði 5 kg sleggju 53,34 metra og bætti fyrra met sitt um 1,72 metra.
Að sögn Engilberts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra HSK, er nær öruggt að þetta sé í fyrsta sinn hérlendis sem sett er HSK met á frjálsíþróttavelli utanhúss á aðventunni. Fleiri met hafa verið sett á þessum tíma erlendis og einnig í gamlárshlaupi ÍR en ekki á frjálsíþróttavelli utanhúss um hávetur.

