Héraðsþing HSK í Þorlákshöfn á laugardag

96. héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins verður haldið í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn á laugardag, 10. mars næstkomandi og hefst kl. 9:30.

Þing HSK hafa tvisvar sinnum verið haldin í Þorlákshöfn, árin 1998 og 2008. Það fer vel á því að halda þingið í Þorlákshöfn, í aðdraganda Unglingalandsmótsins, sem haldið verður á staðnum um næstu verslunarmannahelgi.

Rétt til setu á þinginu eiga 123 fulltrúar frá 57 aðildarfélögum HSK og tveimur sérráðum sambandsins, auk gesta.

Þessa dagana er unnið að lokaundirbúningi þingsins og þá er kjörnefnd sambandsins að störfum, en nefndin hefur það verkefni að koma með tillögu að nefndar- og stjórnarskipan HSK 2018.

Á þinginu kemur út ríkulega myndskreytt ársskýrsla um starfsemi HSK á liðnu ári. Auk hefðbundinna þingstarfa verður val á Íþróttamanni HSK 2017 kunngjört á héraðsþinginu. Fimm manna valnefnd sá um að velja íþróttamann líkt og undanfarin ár, en alls voru 20 íþróttamenn í jafn mörgum greinum tilnefndir. Hafa þeir allir verið boðaðir á verðlaunahátíð HSK sem haldin verður á þingstað kl. 14:40 á laugardag.

Stjórn HSK mun leggja fram fjórtán tillögur á þinginu, auks þess sem nefndir þingsins munu fjalla um ákveðin mál sem hafa verið í umræðunni að undanförnum.

Fyrri greinAldís í baráttusætinu í Hveragerði
Næsta greinÞjálfararáðstefna Árborgar á fimmtudag