Hengilshlaupið ræst í kvöld

Hlauparar í Henglinum.

Hengill Ultra utanvegahlaupið í Hveragerði verður ræst kl. 20:00 í kvöld, sólarhring síðar en til stóð.

Hlaupinu var frestað í gærkvöldi vegna veðurs en að sögn Einars Bárðarsonar var öryggi hlaupara haft að leiðarljósi. Veðurstofan hafði gefið út gula viðvörun í gær þar sem veðurútlit var alls ekki gott.

„Það hafa komið niður 77 mm af rigningu síðan á miðnætti og það voru 15 til 18 metrar á sekúndu í nótt. Það eru ekki kjöraðstæður og ákvörðunin var því tekin af öryggisástæðum. Svo er bara að standa þetta af sér, þurrka sér í framan og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Einar.

100 km hlaupið verður ræst kl. 20:00 í kvöld, 50 km hlaupið kl. 8:00 í fyrramálið og 25 km hlaupið kl. 13. Hlauparar í 10 og 5 km hlaupi verða ræstir kl. 14:00.

Fyrri greinSýning fyrir alla sem kunna að meta kökur
Næsta greinCvitkovac skoraði úr útsparki