Hengilsfólk náði góðum árangri á Þrekmótaröðinni

CrossFit-leikar Þrekmótaraðarinnar fóru fram síðastliðinn laugardag. Þetta er sjöunda árið í röð sem leikarnir eru haldnir en þar taka 400 keppendur þátt í einstaklings-, para- og liðakeppni í opnum flokki og flokki 39 ára og eldri.

Í parakeppni keppa karl og kona saman og í liðakeppni keppa fimm karlar eða fimm konur saman í liði. Erfiðleikastuðull mótsins hefur farið sívaxandi með auknum þyngdum og meira krefjandi æfingum í kjölfar aukinna vinsælda sportsins.

Keppt var í fjölbreyttum samsetningum æfinga með stuttum pásum inn á milli. Meðal æfinga voru ketilbjölluæfingar, ólympískar lyftingar, upphífingar, sprettir, kassahopp og róður. Markmið CrossFit er að þjálfa alhliða hreysti og var mótið sniðið með það í huga að prófa sem flesta þætti alhliða forms.

Crossfit Hengill átti 26 keppendur á mótinu, fjögur lið, tvö pör og tveir keppendur í einstaklingskeppninni. Hjónin Rúna Einarsdóttir og Þorsteinn Ómarsson lönduðu sigri í +39 ára flokknum, Ingibjörg Gísladóttir lenti í 3. sæti í einstaklingskeppni +39 ára og Team Hengill, skipað karlkyns þjálfurum Crossfit Hengils, lentu í öðru sæti í liða keppninni.

Fyrri greinViðamiklar framkvæmdir hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar
Næsta greinEldsupptökin í rafmagnstöflu