Helgi Valur öruggur á punktinum í sigri á Samherjum

Helgi Valur Smárason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR vann góðan sigur á Samherjum úr Eyjafirði í 5. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í dag og tyllti sér um leið í toppsæti B-riðisins, tímabundið í það minnsta.

Vindurinn hafði talsverð áhrif á leikinn í dag og Rangæingar höfðu vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Hægri bakvörðurinn Steinn Skúli Jónsson komst fyrstur á blað með góðu marki á 22. mínútu en Samherjar náðu að jafna undir lok fyrri hálfleiks og var það í eina skiptið í leiknum sem þeir fundu leiðina framhjá Sigurði Orra Baldurssyni í marki KFR, sem átti stórleik í endurkomuleik eftir tveggja ára hlé.

Staðan var 1-1 í leikhléi og allt fram á 75. mínútu en Rangæingar voru sterkari á lokakaflanum. Helgi Valur Smárason kom KFR aftur í forystuna með marki af vítapunktinum á 75. mínútu eftir að brotið var á Hjörvari Sigurðssyni í teignum og heimamenn létu ekki þar við sitja. Varamaðurinn Aron Birkir Guðmundsson bætti við marki á 86. mínútu og í uppbótartímanum fékk KFR annað víti þegar brotið var á Helga Val innan vítateigs. Hann fór að sjálfsögðu sjálfur á punktinn, skoraði af öryggi og tryggði KFR 4-1 sigur.

KFR er nú með 9 stig í toppsæti B-riðilsins, jafnmörg stig og Kría, sem á leik til góða.

Fyrri greinAðstoðuðu ökumenn í nágrenni Þórisvatns
Næsta greinVerkföll halda áfram í vikunni