Helgi valinn íþróttamaður ársins

Helgi Ármannsson, knattspyrnumaður úr KFR, hefur verið valinn íþróttamaður Rangárþings ytra árið 2011.

Helgi, sem er frá Vesturholtum í Þykkvabæ, var lykilmaður í liði KFR sem tryggði sér sæti í 2. deild í fyrsta skipti á síðasta keppnistímabili. Auk þess lék hann með 2. flokki og hafði nóg að gera því hann lék yfir þrjátíu leiki með meistaraflokki og 2. flokki á síðasta ári.

Í umsögn vegna tilnefningarinnar segir að Helgi sé hörkuduglegur og vinni vel á knattspyrnuvellinum. Hann skoraði nokkur mörk og lagði þau líka upp auk þess að æfa vel og hann var jafnan duglegur á æfingum.