Helgi skoraði eina markið

Helgi Ármannsson skoraði sigurmark KFR þegar liðið lagði nágranna sína í Hamri í B-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. KFR sigraði 1-0.

Leikurinn var fjörugur og hart tekist á á köflum. Hamarsmenn voru sterkari í fyrri hálfleik en féllu oft í rangstöðugildru Rangæinga og fyrri hálfleikur var markalaus.

Rangæingar hresstust nokkuð í seinni hálfleik og Helgi Ármannsson kom KFR yfir þegar hann var rúmlega hálfnaður. Diego Marínez fékk boltann úti á vængnum og sendi góða sendingu milli miðvarðar og bakvarðar, þar var Helgi mættur, lék á Björn Aðalsteinsson, markvörð Hamars og rúllaði boltanum inn.

Fimm mínútum síðar fengu Hvergerðingar vítaspyrnu en Ari Þór Kristinsson, markvörður KFR, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Þar við sat og Rangæingar hirtu stigin þrjú sem í boði voru.