Helgi og Hrafnhildur bestu leikmenn Selfoss

Lokahóf handknattleiksdeildar Umf. Selfoss var haldið sl. laugardag í Hvítahúsinu. Helgi Hlynsson og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir voru valin leikmenn ársins.

Hjá körlunum var markvörðurinn Helgi Hlynsson valinn leikmaður ársins, Atli Kristinsson var markahæstur og valinn sóknarmaður ársins, Ómar Vignir Helgason var valinn varnarmaður ársins, Matthías Örn Halldórsson efnilegastur og Guðni Ingvarsson fékk baráttubikarinn afhentan.

Baráttubikarinn var nú veittur í fyrsta sinn í meistaraflokki karla og kvenna en hann stendur fyrir leiðtogahlutverk, baráttuanda og hvatningu innan liðsheildar. Gefendur eru Fusion Active og Stofan Hársnyrtistofa.

Langt er síðan veitt hafa verið verðlaun fyrir meistaraflokk kvenna en flokkurinn en flokkurinn var endurvakinn haustið 2010 og er nú kominn á fullt skrið.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var valin leikmaður ársins hjá konunum en hún var einnig valin efnilegastai leikmaðurinn auk þess að vera markahæst, með 146 mörk og valin sóknarmaður ársins. Thelma Sif Kristjánsdóttir var valin varnarmaður ársins og baráttubikarinn fékk Sigrún Arna Brynjarsdóttir.

Í 2. flokki karla var Matthías Örn Halldórsson leikmaður ársins og markahæstur en Einar Sverrisson var valinn efnilegasti leikmaðurinn.

Mikið var um dýrðir á lokahófinu og skemmtu allir sér frábærlega en hljómsveitin Á móti sól hélt uppi stuðinu fram eftir nóttu.