Helgi fór holu í höggi

Helgi Hjaltason, Golfklúbbi Selfoss, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 3. braut Svarfhólsvallar í gær, en meistaramót GOS stendur yfir þessa dagana.

Helgi smellhitti boltann með 9 járni beint á holu og lenti kúlan einu sinni á flötinni áður en hún fór beint ofaní holuna.

Það var mikið fjör á Svarfhólsvelli gær þegar annar dagurinn í meistaramótinu fór fram, en gærdagurinn var fyrsti dagurinn hjá meistaraflokki og 1. flokki.

Mikil spenna er í mörgum flokkum en að deginum loknum var Helgi í 3. sæti í 1. flokki á 76 höggum. Ragnar Sigurðarson leiðir keppni í flokknum á 72 höggum.

Í meistaraflokki leiðir Hlynur Geir Hjartarson á 65 höggum eftir fyrsta hring. Hann var þar aðeins einu höggi frá því að jafna vallarmet sitt sem hann setti á Svarfhólsvelli í síðasta mánuði.