Helga Guðrún endurkjörin formaður UMFÍ

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, HSK, var í dag einróma endurkjörin formaður Ungmennafélags Íslands til næstu tveggja ára á sambandsþinginu í Hofi á Akureyri.

Helga hefur gegnt formennsku í UMFÍ síðan 2007 en hún var þá fyrsta konan sem kjörin var formaður samtakanna.

,,Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti, gleði, tilhlökkun, eftirvænting og vinna. Ég er mjög ánægð með þá góðu umræðu sem fram fór á þessu þingi. Fólk hefur skipst á skoðunum en náð lendingu og við förum af þessu þingi sátt. Ég er þakklát fyrir það að hreyfingin treystir mér áfram fyrir því að vera áfram í þessu starfi. Ég hef ekki farið dult með það að mér finnst þessi hreyfing frábær og skipta samfélag okkar miklu máli. Hún er ein af grunnstoðunum og það á að leggja rækt við hana og gera henni hátt undir höfði. Til þess þarf hún fjármagn og skilning stjórnvalda og annarra sem við getum leiðtað til,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir í viðtali skömmu eftir endurkjörið.

Hún sagðist hlakka til næstu tveggja ára en það eru margar tillögur sem eru samþykktar á þinginu sem marka starfið næstu tvö árin. Það er vinna að fylgja þessu öllu saman eftir þannig að það sé vel gert og skila þeim árangri sem þingið er að kalla eftir.

,,Ég vona að okkur takist þetta allt saman og ég lít björtum augum á framhaldið. Ég sagði það í ávarpi mínu á þinginu að framtíð hreyfingarinnar væri björt og framtíðasýnin væri skýr. Við höfum mikinn meðbyr í samfélaginu, okkur er treyst og það er leitað til okkar til að vera í forystu í ýmsum málum. Framtíðin er vinna áfram með þessi göfugu markmið, Ræktun lýðs og lands, og byggð á ungmennafélagsandanum og gildum hans. Það er ekki annað hægt en að vera bjartsýn,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir.

Fyrri greinEnn skelfur á Heiðinni
Næsta greinInnbrot í sumarbústað