Frjálsíþróttakonan Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Geysi og hestaíþróttamaðurinn Jón Ársæll Bergmann, Hmf. Geysi, voru útnefnd íþróttakona og íþróttamaður Rangárþings ytra árið 2025.
Sveitarfélagið heiðraði sitt íþróttafólk við hátíðlega athöfn síðastliðinn laugardag. Auk Helgu Fjólu og Jóns Ársæls hlutu sextán aðrir íþróttamenn viðurkenningar fyrir afrek sín á árinu 2025.
Helga Fjóla er margfaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára stúlkna, þar á meðal í 60 m grindarhlaupi innanhúss, 100 m grindarhlaupi utanhúss, hástökki, langstökki, 4×200 m boðhlaupi innan og utanhúss en einnig er hún Íslandsmeistari í sjöþraut utanhúss. Hún er hluti af unglingalandsliði Frjálsíþróttasambandsins og hefur náð þar lágmörkum í fimm greinum.
Jón Ársæll átti gríðarlega góðu gengi að fagna árið 2025. Hæst ber að nefna að hann varð þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Sviss. Hann varð einnig margfaldur Íslandsmeistari og tók þátt í fjölmörgum mótum með góðum árangri.
Dagný fékk heiðursverðlaun
Fleiri viðurkenningar voru veittar við athöfnina. Karlalið KFR í knattspyrnu var heiðrað fyrir framúrskarandi liðsárangur en liðið sigraði 5. deildina í sumar og mun leika í 4. deild á næsta tímabili. Þá fengu Jónína Lilja Pálmadóttir og Viðar Rúnar Guðnason viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf í þágu íþrótta- og tómstundastarfs í sveitarfélaginu. Jónína Lilja hefur staðið að uppbyggingu hestafimleika á Hellu og Viðar hefur staðið fyrir öflugu starfi og uppbyggingu barna- og unglingastarfs hjá Skotíþróttafélaginu Skyttum.
Að lokum fékk knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir heiðursverðlaun Rangárþings ytra fyrir fyrir einstakan knattspyrnuferil og fyrirmyndarhlutverk. Dagný er þaulreynd landsliðskona sem leikið hefur með sterkum félögum víða um heim. Rangæingar eru stoltir af Dagnýju en hún hefur verið innblástur fyrir börn og ungmenni, innan vallar sem utan.

