Helga Fjóla bætti héraðsmet í stangarstökki

Helga Fjóla Erlendsdóttir. Ljósmynd/HSK

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Garpi, bætti héraðsmetið í stangarstökki 15 ára stúlkna innanhúss á Stórmóti ÍR sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina. Helga Fjóla stökk 2,58 m og bætti fyrra met um 8 sm.

Þetta var bæting upp á 28 sm hjá Helgu Fjólu og þar sló hún við þremur fyrrverandi methöfum. Gamla metið í flokknum var 2,50 m og það áttu þær saman þær Sólrún Ósk Jónsdóttir, Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Bryndís Embla Einarsdóttir. Auk þess að sigra í stangarstökkinu þá sigraði Helga Fjóla einnig í hástökki 15 ára stúlkna.

Sunnlendingar náðu stórgóðum árangri á mótinu og þar voru keppendur frá Umf. Selfoss framarlega í flokki. Anna Metta Óskarsdóttir sigraði í þremur greinum á mótinu en hún vann gullverðlaun í hástökki, stangarstökki og þrístökki 14 ára stúlkna. Bróðir hennar, Andri Már Óskarsson, sigraði í 600 m hlaupi og langstökki 11 ára pilta.

Hilmir Dreki Guðmundsson sigraði í kúluvarpi 11 ára pilta, Hróbjartur Vigfússon sigraði í stangarstökki 13 ára pilta, Adda Sóley Sæland sigraði í kúluvarpi 14 ára stúlkna, Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í kúluvarpi 15 ára stúlkna, Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sigraði í kúluvarpi 16-17 ára pilta og Daníel Breki Elvarsson sigraði í hástökki karla.

Fyrri greinÁ annað þúsund manns perluðu í Hörpu
Næsta greinRafmagnslaust á Selfossi