Helga Fjóla bætti 39 ára gömul HSK met

Þrjár efstu í fjölþraut 14 ára stúlkna; Helga Fjóla efst á palli, Unnur Birna Unnsteinsdóttir úr Fjölni varð önnur og Snædís Erla Halldórsdóttir úr ÍR þriðja. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, bætti HSK metið í langstökki innanhúss í þremur aldursflokkum á Aðventumóti Ármanns, sem haldið var í Laugardalshöllinni í gær. Athygli vekur að tvö þessara meta voru orðin 39 ára gömul.

Helga Fjóla sigraði örugglega í langstökki í flokki 14 ára stúlkna með stökk upp á 5,27 sm. Árangurinn er héraðsmet í flokki 14 ára, 15 ára og 16-17 ára. Fyrra metið í 14 ára flokknum átti Hulda Helgadóttir, Hrunamönnum, 5,09 m sett árið 1984. Sama ár setti Linda Björk Bjarnar Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, HSK met í flokki 16-17 ára, 5,26 m sem Helga Fjóla bætti um 1 sm í gær. Metið í 15 ára flokki var síðan 5,22 m og það setti Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, í febrúar á þessu ári. Auk þess að sigra í langstökkinu tók Helga Fjóla einnig gullið í 60 m hlaupi og 600 m hlaupi.

Á mótinu í gær bætti Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, HSK metið í langstökki í 13 ára flokki um 15 sentimetra og vann silfurverðlaun. Anna Metta stökk 5,05 m en metið í 13 ára flokknum áttu Helga Fjóla og Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, Umf. Þór, 4,90 sm. Anna Metta sigraði í þrístökki í kvennaflokki á mótinu í gær og í 13 ára flokknum vann hún einnig silfurverðlaun í kúluvarpi og 600 m hlaupi og tók bronsið í 60 m hlaupi.

Fleiri Sunnlendingar náðu góðum árangri á mótinu; Olgeir Otri Engilbertsson, Íþf. Garpi, sigraði í 200 m hlaupi karla á 23,43 sek. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, varð þriðji í 200 m hlaupi karla og sigraði í sigraði í kúluvarpi 18 ára og eldri, kastaði 10,81 m. Þá varð Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, í 2.-3. sæti í hástökki karla og Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Umf. Selfoss, vann bronsverðlaun í kúluvarpi 16-17 ára stúlkna.

Fyrri greinÞúsund gestir á jólasýningu fimleikadeildarinnar
Næsta greinÍslandsmótið í atskák á Selfossi