Héldu KR niðri eftir hlé

Þórsarar eru komnir með annan fótinn í undanúrslit Lengjubikars karla í körfubolta eftir góðan heimasigur á KR í kvöld, 72-60.

KR-ingar höfðu yfirhöndina allan 1. leikhluta og komust í 3-10 áður en Þórsarar tóku við sér. Þórsurum gekk illa að skora framan af en staðan var 14-18 að loknum 1. leikhluta.

Fyrstu mínútur 2. leikhluta voru fjörugar. KR skoraði fjögur fyrstu stigin áður en Þórsarar minnkuðu muninn í þrjú stig, 19-22. Þá skoruðu gestirnir sjö stig í röð og náðu mesta forskoti sínu í leiknum, 19-29. Þórsarar voru ekki hættir og þeir náðu að minnka muninn aftur í tvö stig fyrir hálfleik, 33-35.

Í seinni hálfleik spiluðu Þórsarar frábæra vörn og gestirnir skoruðu aðeins 25 stig eftir hlé. Þór komst yfir strax í upphafi 3. leikhluta og eftir það létu þeir ekki forystuna af hendi. KR náði að minnka muninn í eitt stig, 44-43, en þá skoruðu Þórsarar tíu stig í röð og litu ekki til baka eftir það.

Þórsarar héldu sínu striki í síðasta fjórðungnum og KR náði aldrei að minnka forskotið að neinu ráði.

Michael Ringgold var maður leiksins hjá Þórsurum með 21 stig og 12 fráköst. Darri Hilmarsson skoraði 12 stig og Guðmundur Jónsson 11.

Þór og KR eru jöfn í efsta sæti riðilsins með 8 stig en Þórsarar hafa betur í innbyrðis viðureignum liðanna. Þór þarf að leggja 1. deildarlið Skallagríms að velli í Þorlákshöfn í lokaumferð riðilsins þann 28. nóvember til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.