Hekla útnefnd reiðkennari ársins á Íslandi

Hekla Katharína Kristinsdóttir.

Menntanefnd Landssambands hestamannafélaga hefur tilnefnt Heklu Katharínu Kristinsdóttur á Árbæjarhjáleigu reiðkennara ársins 2025.

Á ársþingi sínu í lok janúar mun Alþjóðasamband íslensku hestafélaganna tilkynna um þjálfara ársins, sem kosinn verður í netkosningu úr hópi tilnefndra frá aðildarlöndum. Menntanefnd LH tilnefnir Heklu í kjörinu en hún er fráfarandi þjálfari U21 landsliðs Íslands í hestaíþróttum.

Hekla kemur úr mikilli hestafjölskyldu og hefur verið virk bæði á keppnisbrautinni frá unga aldri, sem og sem reiðkennari alla tíð frá útskrift hennar á Hólum 2012. Hún rekur ásamt fjölskyldu sinni hestamiðstöð að Árbæjarhjáleigu og starfar alfarið sem hrossaræktandi, reiðkennari, tamningakona og þjálfari og kennir bæði á Íslandi og erlendis.

Hekla hefur á sínum árum með U21 landsliðinu markað djúp spor í starf landsliðsins með fagmennsku og frábæru utanumhaldi. Árangur ungra knapa á stórmótum fyrir Íslands hönd undir stjórn Heklu hefur verið frábær, og er þar skemst að minnast þess að íslensk ungmenni úr liði henna unnu 7 af 9 mögulegum gullverðlaunum á Heimsmeistaramótinu í Sviss í sumar.

Fyrri grein„Lífið á líka að vera skemmtilegt“