Heimsókn frá grænlenska íþróttasambandinu

Starfsmenn Íþróttasambands Grænlands, ásamt Helga, Karli Ágúst og Gissuri. Ljósmynd/HSK

Héraðssambandið Skarphéðinn fékk góða gesti í heimsókn í síðustu viku þegar starfsfólk frá Íþróttasambandi Grænlands (GIF) kom í heimsókn á íþróttavallarsvæðið á Selfossi.

Stjórn og starfsfólk GIF var hér á landi í síðustu viku til að kynna sér íslenska íþróttastarfið og var heimsókn þeirra á Selfoss hluti af dagskrá hópsins.

Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri HSK og Helgi S. Haraldsson varaformaður HSK og formaður Umf. Selfoss tóku á móti hópnum í morgunkaffi í Selinu og sögðu frá starfsemi HSK og aðildarfélaganna. Svo var farið í Tíbrá þar sem starfsemi Umf. Selfoss var kynnt og sá Gissur Jónsson um þá kynningu. Þangað mætti einnig Karl Ágúst Hannibalsson verkefnisstjóri íþrótta- og æskulýðsmála hjá Sveitarfélaginu Árborg og svaraði hann fyrirspurnum gestana varðandi verkefni sveitarfélagsins í þessum málaflokki. Heimsókninni lauk svo með skoðunarferð um íþróttavallarsvæðið á Selfossi.

Grænlendingarnir voru glaðir í bragði eftir velheppnaða heimsókn og hádegisverð í miðbænum, þegar þau héldu för sinni áfram. Til stóð að fara Gullna hringinn og voru þau sérstaklega hvött til að skoða minjar um íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar, formanns HSK til áratuga, sem sjá má á Hótel Geysi.

Starfsmenn Íþróttasambands Grænlands skoðuðu mannvirkin á Selfossvelli. Ljósmynd/HSK
Fyrri grein150 ár frá fæðingu Einars Jónssonar
Næsta greinStokkseyringar fengu skell