Heimir og Halldór sigruðu í jeppaflokki

Bræðurnir Heimir Snær og Halldór Gunnar Jónssynir tryggðu sér sigurinn í jeppaflokki í Rally Reykjavík á síðustu sérleið rallsins með hrikalega grimmum akstri.

Heimir og Halldór voru í 2. sæti í flokknum nær alla keppnina. Þeir söxuðu á forskot forystusauðanna í allan dag þrátt fyrir að hafa sprengt dekk á Tröllhálsi og ekið útaf á Kaldadal.

Fyrir lokasérleiðina voru þeir 26 sekúndum á eftir næsta bíl en með mikilli grimmd tókst þeim að vinna upp forskotið og rúmlega það. Þeir sigruðu í flokknum með 6 sekúndna forskot á næsta bíl og urðu í 8. sæti í heildarkeppninni.

Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson óku vel í dag og sigruðu meðal annars á tveimur sérleiðum. Þeir höfnuðu í tíunda sæti í heildarkeppninni en áttu litla möguleika á að ná ofar eftir að hafa fengið tíu mínútna refsitíma í gær.

Fyrri greinCook til liðs við Þór
Næsta greinKFR vann mikilvægan sigur