Heimir og Alfreð sömdu til tveggja ára

Sunnlenska fréttablaðið tók saman hverjir munu þjálfa knattspyrnulið Suðurlands næsta sumar. Þegar er búið að ganga frá samningum við þjálfara Ægis og Hamars, en bæði þessi lið leika í 2. deild.

Salih Heimir Porca skrifaði undir tveggja ára samning við Hamar fyrir stuttu. Alfreð Elías Jóhannsson framlengdi einnig sinn samning við Ægi og verður þjálfari í Þorlákshöfn næstu tvö árin.

KFR hefur ekki ráðið þjálfara fyrir næsta sumar, en Ómar Valdimarsson hætti með liðið í ágúst. Forráðamönnum KFR hafa borist fyrirspurnir frá tveimur aðilum, en þeir ætla að ganga frá sínum málum um næstu mánaðarmót.

Svipaða sögu er að segja af Knattspyrnufélagi Árborg. Þar verður stjórnarfundur í næstu viku þar sem þessi mál verða rædd. Samkvæmt heimildum Sunnlenska er ólíklegt að Guðmundur Garðar Sigfússon, sem var spilandi þjálfari í sumar, verði það áfram. Það er þó ekki endanlega ákveðið.

Þessi mál er þegar komin á hreint hjá karla- og kvennaliði Selfoss eins og greint hefur verið frá.