Heimamenn harðari í seinni hálfleik

Ísak Gústafsson sækir að vörn Harðar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Harðar í Olísdeild karla í handbolta í dag. Hörður mætti í Set-höllina á Selfoss í dag og lét til sín taka í fyrri hálfleik.

Harðverjar mættu ákveðnir til leiks og leiddu framan af leiknum. Þeir komust í 6-10 þegar rúmar 12 mínútur voru liðnar en Selfyssingar gyrtu sig þá í brók, jöfnuðu 11-11 og komust yfir í kjölfarið. Staðan í hálfleik var 17-13.

Selfoss var stóru skrefi á undan allan seinni hálfleikinn. Munurinn varð mestur átta mörk, 25-17, Hörður náði að minnka muninn í fimm mörk í kjölfarið en Selfyssingar héldu ró sinni, spýttu í lófana og sigruðu að lokum 36-29.

Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga í dag, skoraði 7 mörk, þar af fimm fyrstu mörk Selfoss í leiknum. Einar Sverrisson skoraði 5, Atli Ævar Ingólfsson og Guðjón Baldur Ómarsson 4, Hannes Höskuldsson, Karolis Stropus og Richard Sæþór Sigurðsson 3, Ragnar Jóhannsson og Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Tryggvi Sigurberg Traustason, Sölvi Svavarsson og Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn varði 12 skot í marki Selfoss og Vilius Rasimas 2.

Selfyssingar eru nú í 6. sæti Olísdeildarinnar með 17 stig en Hörður er áfram á botninum með 2 stig.

Fyrri greinHellisheiði og Þrengsli lokuð
Næsta greinKristinn Þór tvöfaldur Íslandsmeistari