Heimaleikir hjá báðum liðum FSu um helgina

Körfuboltavertíðin hófst í þessari viku og í kvöld er komið að fyrsta leik FSu í 1. deildinni. Félagið teflir nú einnig fram kvennaliði í fyrsta sinn.

Veislan hefst í kvöld þegar Þór Akureyri kemur í heimsókn en viðureign liðanna hefst kl. 20:30 í Iðu.

Undirbúningstímabilið hefur gengið vel, liðsmenn FSu hafa verið duglegir við æfingar og spilað nokkuð marga æfingaleiki sem hafa gengið að óskum að mestu leyti. Liðið hefur breyst lítillega í mannskap en kjarninn er sá sami og í fyrra. Erik Olson þjálfari liðsins framlengdi samning sinn í sumar og er því að hefja sitt annað tímabil með liðið og er hann einnig aðalþjálfari körfuboltaakademíu FSu.

Kvennaliðið er alveg nýtt af nálinni en um er að ræða sameiginlegt lið FSu og Hrunamanna í 1. deild kvenna. Mikil spenna er í herbúðum félagsins vegna þessa nýja liðs en spilandi þjálfari þess er Jasmine Alston. Fyrsti leikur kvennaliðsins er á morgun, laugardag kl. 13, en þá kemur Stjarnan í heimsókn í Iðu.

Fyrri greinGötugrillið komið á kortið
Næsta greinKrakkaborg flutt í Flóaskóla