Heiður að spila stóra leiki fyrir framan fólkið okkar

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn og Valur eigast við klukkan 20 í kvöld í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfubolta. Úrslitahelgin fer fram í Smáranum í Kópavogi.

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, segir að leikurinn leggist vel í sína menn og allir séu spenntir að taka þátt í þessu stóra verkefni.

„Já, það eru allir vel stemmdir og tilbúnir í slaginn. Það er heiður fyrir okkur að fá að spila svona stóra leiki fyrir framan fólkið okkar,“ segir Lárus í samtali við sunnlenska.is. Hann á von á góðri mætingu úr Ölfusinu í kvöld.

Þór vann Val sannfærandi í deildinni í síðustu viku en Lárus segir að sá leikur trufli menn ekkert í undirbúningnum fyrir kvöldið.

„Staðan er 2-1 fyrir Val í vetur. Þeir unnu okkur á Icelandic Glacial mótinu og svo aftur í deildinni á Hlíðarenda. Þannig að við ætlum okkur að jafna í kvöld og fara alla leið í úrslitaleikinn,“ segir Lárus.

Leikurinn hefst klukkan 20 í Smáranum. Miðasala er í Stubb-appinu, en þeir sem eiga ekki heimangengt geta horft á leikinn í beinni útsendingu á RÚV2.

Fyrri greinSteypudrangur bauð lægst í Þjórsárdalsveg
Næsta greinGul viðvörun: Skafrenningur og leiðindi