„Heiður að finna áhuga og traust frá ÍA“

Guðmundur ásamt Jóhannesi Karli Guðjónssyni, þjálfara ÍA, á Akranesi í gærkvöldi. Ljósmynd/ÍA

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Tyrfingsson frá Selfossi skrifaði í gærkvöldi undir tveggja ára samning við úrvalsdeildarlið ÍA.

Guðmundur er fæddur og uppalinn á Selfossi og hefur spilað 32 leiki með meistaraflokki Selfoss, þrátt fyrir ungan aldur, en Guðmundur er 17 ára gamall. Hann á einnig að baki sex landsleiki með U16 ára landsliði Íslands, 9 með U17 ára og tvo með U18 landsliðinu.

„Mér líst gríðarlega vel á ÍA, þetta er flottur klúbbur með mikinn metnað og þeir eru óhræddir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Hópurinn er sterkur og flottur og þjálfarateymið einnig og því tel ég þetta vera rétta skrefið til að taka fyrir minn feril,“ segir Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir að fá tækifæri til að vinna mig inn í liðið og spila í efstu deild og bæta mig sem leikmann og þróa minn leik frekar og mun leggja allt í að hjálpa ÍA að ná sínum markmiðum. Það er mikill heiður að finna áhuga og traust frá eins flottu félagi og ÍA og vill ég þakka þeim fyrir það,“ bætir hann við.

Guðmundur byrjaði að æfa fótbolta sex ára gamall á Selfossi og hann er þakklátur uppeldisfélaginu fyrir tækifærin sem hann hefur fengið þar.

„Já, ég vil þakka Selfoss fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir mig síðan ég byrjaði að æfa. Ég hef fengið ótal tækifæri og ekki síst að fá að koma ungur inn í meistaraflokk og spila þar, það hefur verið mikil reynsla fyrir ungan leikmann og hjálpað mér mikið,“ segir Guðmundur en hann kveður Selfoss í toppbaráttu 2. deildarinnar.

„Ég óska félögum mínum í liðinu góðs gengis og hef fulla trú á að þeir muni klára verkefnið og fara upp um deild.“

Guðmundur í síðasta leik sínum með Selfoss – í bili – gegn Dalvík/Reyni síðastliðinn laugardag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar skellti toppliðinu
Næsta greinÖkuferðin endaði inni í garði