Heiðrún og Egill íþróttafólk ársins 2022

Egill og Heiðrún með verðlaun sín á héraðsþinginu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Valnefnd á vegum Héraðssambandsins Skarphéðins valdi kylfinginn Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur úr Golfklúbbi Selfoss og júdómanninn Egil Blöndal úr Umf. Selfoss íþróttafólk ársins 2022 hjá HSK.

Úrslitin í kjörinu voru tilkynnt á Héraðsþingi HSK sem haldið var í íþróttahúsinu á Hellu í dag.

Heiðrún vann eitt af stórmótum ársins á GSÍ mótaröðinni og endaði í 2. sæti á stigalista GSÍ mótaraðarinnar 2022. Hún spilaði á Evrópumótinu með A-landsliði kvenna og vann vann þrjá leiki af fjórum. Heiðrún endaði í 2. sæti einstaklinga á Conference Championship í háskólagolfinu, ásamt því að vera valin í lið ársins.

Egill er einn af öflugustu júdómönnum á Íslandi. Hann varð Íslandsmeistari Seniora í -90 kg flokki fimmta árið í röð og varð í 3. sæti í sínum þyngdarflokki á Norðurlandameistaramótinu 2022.

Auk Heiðrúnar og Egils voru 27 aðrir íþróttamenn tilnefndir í valinu.

Fyrri greinStyrkleikarnir á Selfossi 29.-30. apríl
Næsta greinFinnst rosalega erfitt að slaka á