Heiðrún Anna og Sigurjón Ægir íþróttafólk HSK 2023

(F.v.) Helgi S. Haraldsson, varaformaður HSK, Heiðrún Anna, Sigurjón Ægir og Guðríður Aadnegard, formaður HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kylfingurinn Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Golfklúbbi Selfoss og kraftlyftingamaðurinn Sigurjón Ægir Ólafsson, Íþróttafélaginu Suðra voru útnefnd íþróttafólk ársins 2023 hjá Héraðssambandinu Skarphéðni á 102. héraðsþingi HSK í Árnesi í gærkvöldi.

Heiðrún Anna varð í 2. sæti á stigalista GSÍ mótaraðarinnar árið 2023. Hún spilaði á Evrópumótinu í golfi með A-landsliði kvenna og var hluti af kvennaliði Golfklúbbs Selfoss sem varð Íslandsmeistari golfklúbba í 2. deild kvenna. Heiðrún er einnig mjög virkur félagsmaður innan Golfklúbbs Selfoss en hún þjálfar innan golfklúbbsins, stelpuhóp og nýliða og er í mótsstjórn félagsins.

Sigurjón Ægir var valinn til að taka þátt á Special Olympics í Berlín og var í kjölfarið boðið á HM í kraflyftingum með búnaði. Þar vann hann gullverðlaun í sérstökum Spec OL flokki. Í Berlín byrjaði nýr kafli í lífi Ægis en hann vann hug og hjörtu fólks um allan heim. Fólk hreinlega grét af gleði að sjá þennan grjótharða íþróttamann standa upp
úr hjólastólnum, skjögra um og reyna við 100 kg í réttstöðulyftu.

Auk Heiðrúnar og Ægis voru 24 aðrir íþróttamenn tilnefndir í valinu, 13 karlar og 11 konur. Sérstök valnefnd innan HSK velur íþróttafólk ársins og eins og oft áður var niðurstaða nefndarinnar einróma í ár.

Fyrri greinSigurmark í uppbótartímanum
Næsta greinGlatt á hjalla á Vorkvöldi Lindex