Kylfingarnir Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Heiðar Snær Bjarnason, bæði úr Golfklúbbi Selfoss, voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Sveitarfélagsins Árborgar 2025 á uppskeruhátíð fræðslu- og frístundanefndar Árborgar sem haldin var á Hótel Selfossi í kvöld.
Fjórtán karlar og tíu konur voru tilefnd í kjörinu en sérstök valnefnd kaus á milli íþróttafólksins ásamt því sem almenningur kaus í netkosningu.
Heiðrún Anna átti frábært ár, hún varð Íslandsmeistari í holukeppni og stigameistari Golfsambands Íslands en hún sigraði á fjórum af sex stórmótum GSÍ. Heiðrún Anna var valin í A-landslið kvenna og spilaði með því á Evrópumótinu í golfi. Hún er efst íslenskra kvenna á heimslista áhugamanna.
Heiðar Snær stundar nám við West Virgina Tech í Bandaríkjunum og leikur með liði skólans í háskólagolfinu. Hann náði í sinn fyrsta einstaklingssigur í háskólagolfinu á árinu auk þess sem lið hans sigraði á tveimur mótum. Heiðar Snær varð í 12. sæti á Íslandsmótinu í golfi, þar sem hann afrekaði meðal annars að fara holu í höggi í beinni útsendingu á RÚV.
Spennandi kosning
Heiðrún Anna hlaut 90 stig í kjörinu en önnur varð hestaíþróttakonan Védís Huld Sigurðardóttir, Hestamannafélaginu Sleipni, með 78 stig og frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, varð í 3. sæti með 64 stig. Hjá körlunum var mun mjórra á mununum en Heiðar Snær hlaut 57 stig, júdómaðurinn Egill Blöndal, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti með 50 stig og hestaíþróttamaðurinn Sigursteinn Sumarliðason úr Sleipni í 3. sæti, einnig með 50 stig.
Auk útnefningar íþróttafólks ársins var fjöldi íþróttamanna heiðraður Íslands- og bikarmeistaratitla árið 2025 og einnig var úthlutað var úr afreks- og styrktarsjóðum Árborgar og Umf. Selfoss, Golfklúbbs Selfoss og Hestamannafélagsins Sleipnis. Þá voru árleg hvatningarverðlaun fræðslu- og frístundanefndar veitt og að þessu sinni komu þau í hlut Dansakademíunnar, sem heldur úti öflugu starfi fyrir börn og unglinga.

